Concertgebouw, Rómeo og Júlía, Tófan og Vetrarferðin

Share:

Listens: 0

Víðsjá

Arts


Í gær bárust þær fréttir að sinfóníuhljómsveitin Concertgebouw frá Amsterdam sé á leið til landsins og muni halda tónleika í Hörpu þann 10. nóvember næstkomandi. Hljómsveitin, sem af mörgum er talin ein allra besta sinfóníuhljómsveit veraldar, flytur á tónleikunum sjöttu sinfóníur rússnesku tónskáldanna Tsjajkovskís og Sjostakovitsj undir stjórn finnans unga Klaus Mäkelä sem er á meðal eftirsótttustu hljómsveitarstjóra samtímans. Í Víðsjá dagsins verður rætt við Helga Jónsson tónlistarfræðing um þessa stórmerku hollensku sveit sem stendur á traustum sögulegum grunni og vekur hrifningu um heim allan. Einnig verður verður rætt við baritón söngvarann Jóhann Kristinsson sem hafið hefur litla og netta tónleikaferð sína um landið með Vetrarferð Schuberts upp á vasann. Jóhann söng lagaflokk tónskáldins á tónleikum á Akranesi í gærkvöldi ásamt píanóleikaranum Ammiel Bushakevitz. Þeir félagar verða svo á Ísafirði á fimmtudag og í Salnum í Kópavogi á sunnudag kl. 15. Snæbjörn Brynjarsson, leiklistarrýnir Víðsjár, segir hlustendum skoðun sína á sýningunni Rómeo og Júlía hjá Íslenska dansflokknum. Og loks tekur ný rödd til máls í Víðsjá. Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir fer á stjá og ræðir við Magneu Þuríði Ingvarsdóttir heldur úti Facebook síðu Tófan ljóða- og fræðasetur sem er tileinkuð skáldkonum. Þar birtir hún nánast daglega færslur um einstaka skáldkonur þar sem ljóð þeirra eru dregin fram. Yfirleitt eru skáldin sem um ræðir fædd í kringum þar síðustu aldamót og gjarnan eru nöfn þeirra með öllu óþekkt í dag. Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir kíkti í heimsókn til Magneu og fékk að grafast fyrir um tildrög Tófunnar og grúska með henni í ljóðabókunum. Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir